Akureyrarbær situr undir höggum þessa dagana frá stórum hóp bæjarbúa vegna meintrar ákvörðunar þeirra um notkun á salti sem hálkuvörn á sama tíma og verið er að þrýsta á Akureyrarbæ að finna lausnir á svifryksvanda þar á bæ.
Við fórum og könnuðum málið og komumst að því að samkvæmt Akureyrarbæ hefur ekkert breyst í þessum efnum frá því í Janúar 2019, en þá var byrjað að notast í litlu magni við sjó til þess að draga úr klaka í bland við sandinn. Sjórinn er svo á köldum dögum einnig notaður í blöndur til þess að rykbinda, enda getur reynst erfitt að rykbinda með hreinu vatni í frosti ásamt því að erfitt getur reynst að sópa göturnar ef sandurinn/mölin er frosin við veginn að miklu leiti. Fyrir það hefur sjór eingöngu verið notaður á allra verstu köflum bæjarins.
Á vef Akureyrarbæjar undir „Hálkuvarnir“ segir:
„Þau svæði gatna sem eru hálkuvarin í bænum eru fyrst og fremst erfiðar brekkur og gatnamót. Til hálkuvarna er notað brotið malarefni sem hefur gott viðnám (kornastærð 2-6 mm). Til að minnka svifryk er fínefnið sigtað frá og einnig er efnið blandað lítillega með salti (5-7%). Saltið minnkar rykmyndun og gerir það að verkum að auðveldara er að vinna með efnið í frosti. „
HNE mælir með salti
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, tók fyrir svifryks vandann á fundi sínum 6. nóvember 2019 og í framhaldi sendi ósk um úrbætur til Umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrar.
Í fundargerð 68. fundar Umhverfis- og mannvirkjaráðs sem haldinn var 15. nóvember 2019 segir undir lið 5.
„Svifryksvandi í Akureyrarbæ er lýðheilsuvandamál sem kallar á ákveðnar úrbætur að hálfu Akureyrarbæjar (gatnakerfi bæjarins) og Vegagerðar ríkisins (þjóðvegir). Heilbrigðisnefnd mælist til þess að Akureyrarbær og Vegagerð ríkisins noti eingöngu salt/saltpækil til hálkuvarna á Akureyri veturinn 2019 til 2020 og meti árangur af þessari breytingu á verklagi m.t.t. svifryks í Akureyrarbæ að loknum vetri. „
Einnig er mælt með að efla þrif (sópun og smúlun) á götum bæjarins og að notaður verði sjór og eftir atvikum magnesíumklórið til rykbindingar á götum bæjarins, ásamt því að minnt er á mikilvægi þess að takmarka nagladekk með tilliti til svifryks og lýðheilsu.

Mynd: Akureyri.is
Vinna að aðgerðaáætlun
Umhverfis- og mannvirkjaráð tóku málið fyrir á fundi sínum og mun nú hefja útfærslu á aðgerðaáætlun til þess að lámarka svifryk og leggja fyrir ráðið á næst fundi.
Ráðið gat ekki svarað fyrirspurnum um hvað fram undan væri og vísaði í ofangreinda fundargerð og að aðgerðaáætlun væri í vinnslu.
Þar til sú áætlun er klár er ekki hægt að gefa út hvaða aðgerðum verður beitt, en búast má við því að hún verði klár á næstu 2 vikum eða svo, en ekki er verið að salta meira nú en áður.
Ekki fundið fyrir óánægju íbúa
Aðspurt svaraði Akureyrarbær því að þau hafi ekki fundið mikið fyrir óánægju íbúa, nema þá að þau hafi séð eitthvað af umræðu um málið á Facebook.
Starfsmaður var ánægður að sjá hve margir þar töluðu fyrir því að mótmælendur saltsins ættu að vera málefnalegir í tali og skrifum, sem og flestir virtust vera.
Facebook hópur stækkar hratt
Mótmælendur saltnotkunar hafa tekið sig saman á Facebook og hafið umræðu um málið á hópsíðu sem nefnist „Ekkert salt á götum Akureyrar“ en meðlimum í þeim hóp hefur fjölgað úr nokkrum hundruðum í nærri 2.400 á örfáum dögum.
Miklar umræður hafa sprottið upp innan þessa hóps á báða bóga, bæði með og á móti salt notkun, en þar segir að tilgangur hópsins sé að „reyna að opna augu bæjaryfirvalda fyrir því að salt spillir færð og eyðileggur bíla og skófatnað„
Vangaveltur.is tóku saman fyrir nokkru kosti og galla þess að notast við salt á göturnar.
Sjá nánar hér: Kostir og gallar við það að salta göturnar
Salt á götum á að vera stranglega bannað.