Starfsmaður Isavia sagður hafa þegið milljónir í mútur

Héraðssaksóknari hefur ákært fyrrverandi þjónustustjóra hjá ISAVIA fyrir að hafa þegið mútur og umboðssvik. Hann er sagður að hafa þegið um 3,5 milljónir í mútur í tengslum við kaup ISAVIA á miðum í bílastæðahlið fyrir nokkrum árum. Framkvæmdastjóri tæknifyrirtækis sem seldi ISAVIA miðana hefur einnig verið ákærður. Hann er sagður hafa hagnast um 4,5 milljónir á viðskiptunum. ISAVIA krefst tólf milljóna í skaðabætur vegnamálsins. Þessu er greint frá á vef Rúv.is

Inngangur á keflavíkurflugvöll.
Mynd: Anton Brink – Rúv.is

Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í byrjun næsta mánaðar. Í henni kemur fram að málið megi rekja til kæru ISAVIA í júlí fyrir tveimur árum en ISAVIA hafði þá fengið fregnir af brotunum frá fyrverandi starfsmanni tæknifyrirtækisins.

Héraðssaksóknari segir í greinargerð með ákærunni að uppljóstrarinn hafi átt í ýmsum samskiptum við þjónustustjórann hjá ISAVIA um miðakaupin og hafi vitað af brotunum. Það sem fram hafi komið við rannsókn málsins hafi hins vegar ekki þótt leiða til þess að hann yrðir ákærður.

Í ákæru héraðssaksóknara kemur meðal annars fram að ISAVIA hafi ákveðið að hætta viðskiptum við norskt félag um kaup á bílastæðamiðum og beint í staðinn viðskiptum sínum til hins íslenska tæknifyrirtækis. Það hafi gerst að frumkvæði þjónustustjórans sem hafði umsjón með bílastæðum ISAVIA við Keflavíkurflugvöll. Þess er sérstaklega getið að verð íslenska fyrirtækisins hafi verið miklu hærra en ISAVIA greiddi norska fyrirtækinu.

Saksóknari segir að þegar ISAVIA keypti 760 þúsund aðgangsmiða í júní 2015 hafi þjónustustjórinn í krafti stöðu sinnar séð til þess að ISAVIA borgaði óeðlilega hátt verð fyrir miðana. Hann og framkvæmdastjórinn höfðu gert samkomulag sín á milli um að skipta gróðanum sín á milli og var sami háttur hafður tæpu ári seinna þegar aftur voru keyptir sami fjöldi miða.

Í ákærunni segir að greiðslur tæknifyrirtækisins til fyrirtækis þjónustufulltrúans hafi verið skráðar sem ráðgjöf en héraðssaksóknari telur þær hafi ekki byggst á neinum raunverulegum viðskiptum heldur einungis verið yfirvarp fyrir múturgreiðslur. Meðal gagna málsins er afrit af Excel skjali sem fannst við leit í tölvukerfi tæknifyrirtækisins. Það skjal segir saksóknari sýna svo ekki verði um villst ráðagerð um samráð mannana tveggja.

Má bjóða þér að deila þessari síðu?
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •