Kæru jólasveinar, hér er hugmynd

Kæru jólasveinar. Nú eru jólin handan við hornið og þið að undirbúa komu ykkar til byggða, með poka fullan af gjöfum, handa spenntum börnum víðsvegar um landið.

Síðustu ár hefur hins vegar borið örlítið á því að einhver börn eru að fá töluvert stærri gjafir í skóinn frá ykkur en önnur, og veldur slíkt augljóslega töluverðum vangaveltum hjá börnum sem minna fá, sem oft endar í öfundsýki, sorgmæti og öðrum sterkum og síður ánægjulegum tilfinningum.

Augljóslega er þetta ekki meiningin á bakvið þessar ákvarðanir ykkar, en því miður er þetta raunveruleikinn þegar eitt barn fær iPhone meðan annað fær mandarínu, Jón fær PlayStation 4 meðan Siggi fær nammipoka, Þuríður fær spjaltölvu og Tinna fær límmiða… Þið sjáið hvert ég er að fara með þetta.

Hér er því frábær hugmynd fyrir ykkur til þess að allir gangi jafnir að borði á þessum spennandi tímum, til þess að börnin séu ekki að spyrja foreldra sína afhverju jólasveinninn sé að mismuna þeim eða hvort þau hafi verið óþekk og þar eftir götunum.

Farið í samvinnu við foreldrana

Ef þið vinnið með foreldrum barnanna og hjálpið þeim að finna þessar stærri gjafir, þannig að gjafirnar koma beint frá foreldrunum en ekki ykkur, á meðan þið gefið öllum jafnt í skóinn.
Þá verða allir sáttir, enginn er sár útí ykkur og enginn þarf að metast.

Hér er ein hugmynd sem þið getið komið til foreldranna um það hvernig hægt er að gefa gjafirnar 13 (eða 24) á skemmtilegan máta, eina á dag, samhliða skógjöfunum.

Pakkadagatal

Pakkadagatal getur verið fyrir bæði 13 daga, líkt og skógjafirnar, eða 24 dagar líkt og klassíska súkkulaði jóladagatalið, hvort sem hentar hverju sinni.

Teknir eru 13 eða 24 hlutir og er þeim pakkað inn í gjafapappír. Borði eða band er svo sett utan um pakkana líkt og venjulega er gert. Þeir geta innihaldið hvað sem foreldrarnir vilja, allt frá skemmtilegum 500 kr. leikföngum úr Tiger upp í tæknivörur

Pakkarnir eru síðan merktir með númeruðum gjafamiðum frá 1-13/24 og hengdir á band sem strengt er milli tveggja punkta á vegg.
Auðvitað er einnig hægt að notast við gjafapoka, jólasokka og margt fleira.

Mynd: Pinterest

Börnin opna síðan 1 pakka á dag samkvæmt viðeigandi númeri hverju sinni og eru full meðvituð um að þessar gjafir eru frá foreldrum þeirra en ekki ykkur, jólasveinunum, því þau fá áfram í skóinn frá ykkur venjulegar smágjafir líkt og allir aðrir krakkar.

Hægt er að útfæra þetta pakkadagatal á ýmsa mismunandi vegu.
Sem dæmi er hægt að kaupa eða sauma út dagatal með myndum og tölustöfum, þar sem við hvern tölustaf er hringur sem hægt er að binda pakkana í.

Við ákváðum að prófa þetta í ár, þar sem við áttum yndislegt pakkadagatal til að nota sem er stútfullt af fallegum minningum. Við notuðumst eingöngu við ódyrar vörur úr Tiger.

Pakkadagatalið sem við gerðum fyrir okkar gutta, allir pakkarnir kostuðu undir 1.000 kr. hver.
Dagatalið sjálft er saumað í minningu ömmu drengsins, af ömmusystur hans.

Ein aðferð í viðbót er að fela pakkana víðsvegar um húsið á hverju kvöldi og gera fjörugan leik úr þessu að morgni hvers dags eða eftir skóla.

Ég er viss um að þið getið komið með margar aðrar útfærslur sem hægt er að notast við, en aðal málið er að allir krakkar gangi jafnir að borði er kemur að ykkur jólasveinunum.

Kæru jólasveinar, hugsið út í þetta.
Kær kveðja.
Foreldrar fallegs drengs sem var að byrja í 1. bekk og getur ekki beðið eftir því að sjá hvað sveinki kemur með handa honum.

Má bjóða þér að deila þessari síðu?
  • 40
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
  •  
    40
    Shares
  • Post author:
  • Post category:Pistlar