Hjá Íslandspósti er notast við 2 mismunandi gerðir af tollskýrslum, ef svo má að orði komast.
Í raun og veru er önnur gerðin hugsuð fyrir minni sendingar frá öðru landi til einstaklinga og kallast umsýslugjald meðan að hin er fyrir stærri sendingar til einstaklinga og sendinga til fyrirtækja.
Við munum aðeins fara yfir muninn á þessum tveimur hér í þessum pistli.
E3 – Umsýslugjald
Sú fyrri og ódýrari er E3 skýrsla, einnig þekkt sem umsýslugjald.
E3 er sem áður segir fyrir sendingar erlendis frá til einstaklinga.
Einungis er notast við E3 skýrslu þegar pöntun er til einstaklinga og þegar heildarverðmæti sendingar er undir 40.000 krónum. Um leið og verðmæti er komið yfir 40.000 krónur eða ef sending er til fyrirtækis er notast við venjulega tollskýrslugerð.
E3 umsýslugjaldið er mismunandi mikið en það fer eftir því hvernig tilkynningu er notast við.
Hún er ódýrust hjá þeim sem eru með samþykkta sjálfvirka skuldfærslu en dýrust hjá þeim sem fá tilkynningu um sendingar í bréfpósti.
Miðjustig er svo fyrir þá sem fá tilkynningar í tölvupósti.
Hægt er að velja um hvaða leið óskað er eftir með því að hafa samband við Íslandspóst.

Mynd: Unnið skjáskot af postur.is
E1 Tollskýrslugerð
Ef verðmæti pöntunar fer yfir 40.000 krónur hjá einstaklingum, eða er fyrir fyrirtæki, þá er gerð venjuleg tollskýrslugerð.
Slík þjónusta er töluvert dýrari en E3 umsýslugjaldið.
Grunnverð fyrir tollskýrslugerð er 3.850 kr. og er innifalið í því verði 1 vörulína.
Hver lína umfram eina er svo að kosta 285 kr.
Sem dæmi, ef verið er að panta sér 10 mismunandi hluti að utan, og hver hlutur flokkast í sér tollaflokk þá verður það 10 línur og myndi koma til með að kosta 2.565 kr. aukalega.
(9 * 285 þar sem lína 1 er innifalin í tollskýrslugerðinni)
Sendingargjald og önnur gjöld tengd innflutningi
Til viðbótar við þetta kemur svo sérstakt sendingargjald en við höfum tekið saman upplýsingar um það hér: Sendingargjald hjá Íslandspósti vegna erlendra sendinga. (væntanlegt)
Einnig höfum við tekið saman fróðleiksmola um önnur innflutningsgjöld.
Þú getur fundið þann pistil hér: Innflutningsgjöld