Akureyringar stefna á vistvæna bíla

Meirihluti Akureyringa sem tóku afstöðu í nýrri könnun um bifreiðakaup stefnir á að kaupa bíl sem er að hluta eða öllu leyti drifinn áfram af vistvænum orkugjöfum. Rafbílar koma þar helst til greina, en þónokkur fjöldi fólks íhugar að kaupa tengi-tvinnbíl eða metanbíl.
Frá þessu er greint á Akureyri.is

Könnunin var gerð af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri fyrir Norðurorku. Spurt var um næsta bíl sem fólk telur líklegt að það kaupi með tilliti til orkugjafa. Um 30% stefna á að kaupa bensín eða díselbíl, 23% rafbíl, 18% tengi-tvinnbíl og um 1% metanbíl. 28% svarenda sögðust ekki vita það/tóku ekki afstöðu til spurningarinnar.
Var könnunin send á netföng 1.055 einstaklinga sem skráðir eru á Akureyri. 614 svöruðu könnuninni og telst svarhlutfall því vera 58%.

Ef einungis er litið til þeirra sem tóku afstöðu kemur í ljós að 59% þeirra hugsa sér að kaupa næst bíl sem drifinn er áfram af vistvænum orkugjöfum; rafbíl, tengi-tvinnbíl eða metanbíl. 41% telja líklegt að bensín eða díselbíll verði næst fyrir valinu.

Metanstöðin við Miðhúsabraut á Akureyri
Mynd: Akureyri.is

Í takt við aðrar tölur

Þessar niðurstöður ríma við upplýsingar úr frétt frá RÚV í gær, þar sem kemur fram að ríflega sex þúsund fleiri rafbílar en metanbílar séu í umferð hér á landi. Haft er eftir Sigurði Inga Friðleifssyni, framkvæmdastjóra Orkuseturs, að það sé í raun ótrúlegt að ekki fleiri kjósi metan. „Bílarnir eru ódýrari, eldsneytið ódýrara, þetta er framlag inn í loftslagsbaráttuna og við erum að skipta út óhreinum erlendum orkugjafa yfir í hreinan innlendan orkugjafa,“ segir Sigurður í samtali við RÚV.

Þrátt fyrir að einungis séu metan stöðvar í Reykjavík og á Akureyri, telur Sigurður Ingi það ekki vera ástæðuna fyrir því hve fáir velja metanbíla.
Á Íslandi eru skráðir einungis 1.784 bílar metanbílar og vonast hann til þess að fólk fari að notfæra sér þá tækni í auknu mæli enda er mikið meira metan í boði en notast er við hér á landi og er miklu magni af því fargað ár hvert sökum þess hve lítil eftirspurnin er.

Má bjóða þér að deila þessari síðu?
 • 1
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
  1
  Share