Höfðaskóli á Skagaströnd gefur Unicef jólagjöf

Í mörg ár hefur tíðkast hjá nemendum og starfsfólki Höfðaskóla á Skagaströnd að skiptast á gjöfum á litlu jólunum. Allir koma þá með eina gjöf í púkk þar sem dregið er um hvaða pakka hver og einn fær.

Í ár var þó gerð breyting á þessar venju. Í stað þess að gefa hvort öðru litlar gjafir, var óskað eftir því að hvert heimili og hver starfsmaður kæmi með 1000 krónur til þess að safna fyrir vatnsdælu hjá Unicef. Viðbrgöðin létu víst ekki á sér standa og bættust meira að segja nokkrar ömmur og nokkrir afar í hópinn til að styrkja þetta fallega málefni.

Nemendur komu saman og fylgdust með skólastjóranum þeirra, henni Söru Diljá Hjálmarsdóttur ganga frá kaupunum.
Mynd: Höfðaskóli.is

Þann 19. desember hittust nemendur og starfsfólk skólans í stofu unglingastigs og keyptu sannar gjafir, en samtals náðist að safna 90.500 krónum fyrir málefnið. Fyrir þann pening gat Höfðaskóli keypt fimm hlý ullarteppi, þrjá fótbolta og þrjá ofurhetjupakka sem innihalda bóluefni, kælibox og hnetumauk og eina vatnsdælu.

Þetta er frábært málefni sem margir skólar og vinnustaðir mættu taka sér til fyrirmyndar. Það er eins og svo margir segja á þessum árstíma, það er víst sælla að gefa en þiggja!

Má bjóða þér að deila þessari síðu?
 • 1
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
  1
  Share