Innflutningsgjöld

Það er töluvert algengur misskilningur að fólk heldur að ekki þurfi að borga nein innflutningsgjöld á pöntunum frá vissum löndum.

Fríverslunarsamningur

Aðal ruglingurinn kemur útfrá því að fólk telur fríverslunarsamninga eiga við um öll gjöld, meðan að þeir eiga bara við um tollinn.
Gerður hefur verið fríverslunarsamningur við t.d. Kína og fleiri lönd, en slíkir samningar eru í raun úreldir að mestu nú til dags þegar kemur að tolla málum, enda eru tollar að mestu úreldir í Íslenska kerfinu.

Hvað eru innflutningsgjöld?

Innflutningsgjöld er einnig þekkt sem aðflutningsgjöld.
Um er að ræða ýmis gjöld sem sá sem flytur vöru til landsins skal greiða áður en vara er afhent viðkomandi.
Innflutningsgjöld flokkast niður í:

 • Tollar
 • Virðisaukaskattur
 • Vörugjöld
 • Tollafgreiðslugjöld
 • Önnur afgreiðslugjöld
 • Ýmis önnur gjöld

Hvernig reiknast innflutningsgjald?

Þú tekur vöruverð + sendingarkostnað og færð þá tollaverð vöru.
Tollurinn notast við sérstakt tollafgreiðslugengi þann dag sem vara er tollafgreidd og reiknast þá verðmæti vöru út frá því gengi, en ekki því gengi sem þú greiddir vöruna útfrá.

Við tollaverð leggst svo tollur ef við á, ásamt ýmsum úrvinnslugjöldum, skilagjöldum og ýmsum gjöldum þar sem við á.
Þá kemur virðisaukaskatturinn (11-24%) sem leggst ofan á þá upphæð sem komin er.
Að lokum er svo sérstakt gjald tekið fyrir tollskýrslugerð, tollafgreiðslu og afhendingu í ýmsum tilfellum en slíkt fer algjörlega eftir því innflutningsfyrirtæki sem þú ert að eiga við hverju sinni.

Þú getur notast við reiknivél Tollstjóra til þess að reikna innflutnigsgjöld, en hún tekur ekki inn í dæmið afgreiðslu og afhendingargjöld eða gjöld vegna tollskýrslugerðar, tilkynninga og þessháttar.
Reiknivél tollstjóra má sjá hér.

Tollafgreiðslugjöld og önnur afgreiðslugjöld

Ýmis önnur gjöld leggjast svo ofan á þetta allt saman eftir að tollafgreiðslu er lokið.
Þar ber að nefna gjald fyrir tollskýrslugerð sem er mishátt eftir því hve pöntunin er stór og dýr. Mjög margar mismunandi vörur í einni pöntun eykur kostnað á tollskýrslugerð ef pantanir eru í stærri kanntinum.
Verð á tollskýrslugerð er mis mikið milli innflutningsfyrirtækja.
Afgreiðslugjald, eða sendingargjald, er nýtt af nálinni hjá Íslandspósti og á skilið alveg sér umræðu, en í stuttu máli er það auka gjald sem lagt er ofan á allar sendingar sem Íslandspóstur meðhöndlar og hljóðar upp á 400 kr fyrir sendingar sem koma frá löndum innan Evrópu og 600 kr fyrir sendingar sem koma frá löndun utan Evrópu.

Af hvaða sendingum þarf að borga innflutningsgjöld?

Í raun og veru þarf að borga innflutningsgjöld í einhverju formi af öllum sendingum til landsins en þó með undantekningu á bréfpósti og gjöfum.
Hér á landi er ekki tekið tillit til verðmæti vöru. Hvort sem varan kostar 0,1$ eða 1000$ og þarf að borga innflutningsgjöld af öllum sendingum.

Í ákveðnum tilvikum þarf ekki að greiða tolla og gjöld af gjöfum sem sendar eru til landsins. 

Gjafir sendar af sérstöku tilefni.
Tekið af tollur.is

Gjafir sem einstaklingar búsettir erlendis hafa með sér eða senda hingað til lands af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, eru undanþegnar aðflutningsgjöldum að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

 1. Að verðmæti gjafar samkvæmt framlögðum reikningi sé ekki meira en 13.500 kr. Fylgi reikningur ekki vörusendingu áætlar Tollstjóri verðmætið með hliðsjón af líklegu smásöluverði á innkaupsstað. Sé verðmæti gjafar meira en 13.500 kr. eru aðflutningsgjöld reiknuð að því marki sem verðmætið er umfram þá fjárhæð. Brúðkaupsgjafir eru undanþegnar aðflutningsgjöldum þótt þær séu meira en 13.500 kr. að verðmæti, enda sé að mati Tollstjóra um eðlilega og hæfilega gjöf að ræða sem flutt er inn eigi síðar en 6 mánuðum frá brúðkaupi.
 2. Að viðtakandi sýni fram á að um gjöf af sérstöku tilefni sé að ræða. Gjafir vegna afmælis, brúðkaups, jóla eða fermingar teljast meðal annars vera gjafir af sérstöku tilefni í þessu sambandi.
 3. Að sending beri með sér að um sé að ræða gjöf frá gefanda búsettum erlendis og að tengsl séu á milli hans þess sem gjöfina fær.
 4. Sé ljóst af fylgiskjölum eða samsetningu gjafasendingar að hún sé ætluð tveimur eða fleiri og gjöfunum hafi eingöngu af hagkvæmnisástæðum eða vegna tilefnis sendingar verið pakkað saman til flutnings er gjöf til hvers og eins talin sjálfstæð gjöf við mat á því hvort gjöfin teljist innan verðmætamarka.

Undanþága aðflutningsgjalda samkvæmt framangreindu tekur hvorki til áfengis né tóbaks.

Auka vangaveltur

Margir eru ósáttir við það að greiða þurfi innflutningsgjöld af vörum sem kosta mjög lítið og telja að Íslenska tollakerfið ætti að gera líkt og er víðsvegar um Evrópu, þar sem að pantanir undir vissri upphæð, sem dæmi 10$, séu lausar við innflutningsgjöld.
Höfundur er sammála því að öllu leiti og þykir að lámarks þröskuldur ætti að vera í kringum 20$ markið (Vöruverð + sendingarkostnaður)

Má bjóða þér að deila þessari síðu?
 • 1
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
  1
  Share