Hverjar eru ástæður matarsjúkdóma?


Algengustu ástæður matarsjúkdóma eru: Léleg hitun, hæg kæling, matur geymdur við of hátt hitastig og lélegt hreinlæti. Með því að fylgja þeim einföldu ráðum sem eru hér fyrir neðan minnkar þú líkurnar á því til muna að maturinn sem þú útbýrð valdi matarsjúkdómum af einhverju tagi.

Hreinlæti.

Sýklar eru afar útbreiddir og er því hættan á því að matvæli innihaldi sýkla af einhverju tagi alltaf líkleg.
Sýklar geta borist á milli matvæla í gegnum snertingu á öðrum sýktum matvælum, með óhreinum höndum, hönskum eða áhöldum sem ekki hafa verið þrifin nægilega.

Aldrei byrja meðhöndla mat nema þú sért búinn að þvo hendurnar vel að fyrra bragði. Þurfir þú að meðhöndla mörg mismunandi matvæli í einu skaltu alltaf þvo hendurnar á milli þess sem þú vinnur hvert matvæli. Einnig skal ávallt þvo hendur rækilega eftir allar klósett ferðir.

Aldrei útbúa eða meðhöndla mat fyrir aðra sértu með gubbupest, niðurgang, hálsbólgu eða sýkingu í sári á höndum.

Hrátt fuglakjöt eða kjöt af einhverju tagi má aldrei koma í snertingu við annan mat í geymslu eða mat sem á framreiða hráan.

Sértu að vinna með kjöt sem mikill safi lekur úr við vinnslu skaltu þurrka upp safan reglulega með eldhúspappír, ekki með borðtusku! Einnig þarf að passa það mjög vel að safi úr kjöti leki ekki í önnur matvæli og valdi mögulegu smiti.

Notið alltaf hrein áhöld. Afar mikilvægt er að þvo hnífa og skurðarbretti þegar skipt er um hráefni sem þú ert að vinna með.

Aldrei leyfa borðtusku að komast í snertingu við hráefni sem þú ert að vinna með, einnig skaltu aldrei þurrka af skurðarbretti sem þú ert að nota með borðtusku.
Borðtuskur eru kjöraðstæður fyrir bakteríur til að þrífast í.
Góð þumalputtaregla er að skipta oft um tuskur, aldrei nota þær á gólfið og þegar þú þværð þær að gera það á hita yfir 60°C og hellst á suðu stillingu á þvottavélinni.

Handþvottur.

Handþvottur er númer 1, 2 og 3 þegar kemur að því að minnka líkur á sýkla smiti í matvæli.

Hendurnar á þér koma ansi víða og bera þær því óhreinindi og sýkla auðveldlega á milli matvæla. Því er mjög mikilvægt að þrífa hendurnar alltaf á milli klósettferða, þurfir þú að huga að gæludýrinu þínu, bleiuskipta og auðvitað eftir alla aðra meðhöndlun hráa kjötvæla.

Hreinlæti í eldhúsinu.

Sé ekki varlega farið að í eldhúsinu getur myndast hætta á krossmengun milli matvæla.

Þegar talað er um krossmengun er átt við að bakteríur úr hráum mat smitist yfir í fulleldaðan mat.
Dæmi um krossmengunarsmit er t.d. Þú ert að elda kjúkling og þrífur ekki skurðarbrettið þitt eða hnífinn þinn rækilega á milli þess sem þú skerð hráan kjúkling á því og grænmeti sem verður framreitt hrátt. Hætta er því á ef fuglinn er smitaður af einhverri bakteríu sem myndi deyja við eldun haldi lífi í hráa matnum sem er ekki eldaður og smiti þannig þig.

Það er einmitt þess vegna sem það er mjög mikilvægt að vinna aldrei hrátt kjöt og annan mat á sama skurðarbretti eða með óhreinum hníf.
Eigir þú aðeins einn hníf og eitt skurðarbretti þarftu að passa það mjög vel að þrífa bæði áhöldin vel og vandlega áður en farið er að vinna með annan mat.

Matreiðsla

Með réttri matreiðslu og hitun á mat er hægt að drepa nánast alla sýkla sem gætu hafa sest að í matvælum.

Kjöthakk, fars, kjötsneiðar, fisk og fuglakjöt skal gegnsteikja. Í gegnsteiktum matvælum hefur kjarnhiti matvælis náð 75°C því þá eru skjúkdómsvaldandi bakteríur dauðar.

Bakteríur er að finna alstaðar í náttúrunni og þá auðvitað einnig í matvælum. Ef matur er eldaður eða meðhöndlaður á rangan hátt geta sjúkdómsvalandi bakteríur átt auðvelt með að fjölga sér og valdið matareitrun. Kjörhitastig fyrir bakteríur til að fjölga sér er á milli 8°C – 60°C svo passa þarf vel að kjarnhitastig matar nái 75°C til að drepa allar bakteríur sem gætu veið til staðar í matnum.

Ískápurinn og frystirinn

Hrávörur eiga ekki að komast í snertingu við tilbúin mat t.d. álegg eða drykki. Þess vegna þarf oft að raða rétt í ísskápinn svo vökvi úr hráum mat get ekki lekið ofan á tilbúin mat og smitað hann af bakteríum.

Í kæli hægist á fjölgun baktería þess vegna er oft hægt að geyma vöru lengur í kæli heldur en við stofuhita. Í frysti stöðvar fjölgun baktería en þær lifa samt áfram, en vegna þess að fjölgun baktería stöðvast alveg í frysti er hægt að geyma matvæli til lengri tíma í frysti.

Ísskápar eiga að vera 0 – 4°C og frystar eiga að vera -18°C eða kaldari.

Algengt er að ísskápurinn okkar sé heitari en við höldum, svo gott er að fylgjast vel með honum og passa upp á að hann sé að kæla nægilega til að auka geymsluþol vara sem við verslum.

Heimildir: Matvælastofnun (mast.is)

Má bjóða þér að deila þessari síðu?
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •