Íbúar Akureyrar verða sífellt ósáttari með saltið.

„Ekkert salt á götur Akureyrar“ Borgarafundur var haldinn í húsakynnum Bílaklúbbs Akureyrar laugardaginn 23. Nóvember 2019.
Efni þessa fundar var að ræða hvað hægt sé að gera til þess að stöðva aukna salt notkun á götur Akureyrarbæjar ásamt almennri umræðu um kosti og galla notkunar á salti á götur.

Komið var inn á mörg atriði á umræddum fundi og endurspeglar niðurstaða hans hina miklu óánægju Akureyringa á saltnotkuninni, en notkunin virðist hafa aukist gífurlega í vetur umfram síðastliðin ár þrátt fyrir að Akureyrarbær hefur reynt að halda því fram að svo sé ekki.

Akureyri er ekki aðlaðandi þessa dagana
Mynd: Brynjar Zóphoníasson

Aukin drulla á götum bæjarins

Mikil umræða og deiling mynda hefur farið fram í Facebook hópnum „Ekkert salt á götur Akureyrar“ varðandi málefnið, en hópurinn telur nú um 3.500 einstaklinga og fer ört vaxandi.
Aðal umræðuefni síðustu daga hefur snúist um hve skítugur bærinn er orðinn ásamt bílum og öðrum tækjum.

Á meðan aukin salt notkun á að draga úr svifryksmengun þá veldur slík aukning mikið meiri óhreinindum á götum og farartækjum.
Eigendur farartækja þurfa því að þrífa bílana sína mikið oftar, og hefur einn orð á því innan hópsins að hann hafi þurft rúmlega 3 lítra af tjöruhreinsi til þess að ná bílnum sínum góðum eftir erindisgjörðir dagsins. Gífurleg aukning hreinsiefna rennur nú beint til sjávar með tilheyrandi mengun.

Ekki hafa sést jafn margir bílar við þvottastöðvar á þessum tíma árs svo menn muni, svo áhyggjur íbúa er varða mengun vegna þeirra efna sem því fylgir er skiljanlegar.

Klukkan 20:30 – fjórir bílar að þvo og fjórir til viðbótar að bíða. Væri gaman að vita hvað mikið af tjöruhreinsi hefur farið í sjóinn í dag – Mynd: Gísli Rúnar

Vinnuhópur skipaður

Á borgarafundinum var ákveðið að gott væri að skipa 3-5 manna hóp sem myndi vinna áfram með þær hugmyndir og þá punkta sem fram komu á fundinum. Einnig þyrfti hópurinn að afla gagna og reyna að ná tali af kjörnum fulltrúum og embættismönnum Akureyrarbæjar.

Samþykktur vinnuhópur samanstendur af 5 einstaklingum.

 • Elías Þorsteinsson – Formaður
 • Arnór Bliki Hallmundsson – Ritari
 • Jóhann Björgvinsson
 • Hrafn Stefánsson
 • Jón Heiðar Jónsson

Undirskriftarlisti komin á flug

Eftir smávægilega tæknierfiðleika með undirskriftarlista hópsins er hann nú loksins kominn á fullt skrið og hafa núþegar um 1.400 einstaklingar skrifað undir að þeir vilji ekki salt á götur bæjarins.

Segir í lýsingunni á honum:
„Við undirrituð, ætlum með þessum undirskriftarlista að reyna að opna augu bæjaryfirvalda  á Akureyri, fyrir því að SALT spillir færð og ekki síst eyðileggur það bílana okkar og skótau.“

Hægt er að skoða listann hér: Ekkert SALT á götur Akureyrar

Mörg atriði rædd

Samkvæmt ritaðri fundargerð voru alls 26 atriði rædd á borgarafundinum umrædda.
Rætt var um aðrar mögulegar leiðir en að notast við saltið sem hálkuvörn og hvernig sand notkun sem hingað til hefur viðgengst sé með of fínum sand miðað við það sem notast er við hjá nágrannaþjóðum.

Grunur leikur einnig á að innan bæjarstjórnar séu mjög svo skiptar skoðanir á núverandi fyrirkomulagi né þeim áformum sem framundan er. Þar á bæ sé fólk engan veginn sammála um hvað gera skal.

Fundargerðin frá umræddum borgarafundi má sjá hér að neðan.


Hér kemur fundargerðin rituð af Arnóri Blika Hallmundssyni.

„Ekkert salt á götur Akureyrar“ Borgarafundur haldinn í húsakynnum Bílaklúbbs Akureyrar laugardaginn 23. Nóvember 2019

Fundarstjórar Elías Þorsteinsson og Jóhann Björgvinsson.
Ritari Arnór Bliki Hallmundsson.
Ritari taldi 42 í húsi þegar mest var.

Fundur settur kl. 15. Elías Þorsteinsson setti fund og bauð fundargesti velkomna.
Markmið fundar, að efna til skoðanaskipta og skipa 3-5 manna hóp manna sem hafa tíma og vilja til þess, að ræða þessi mál áfram við Akureyrarbæ.

Hér á eftir fara skoðanaskipti og hugleiðingar fundarmanna:

1. Úr sal barst sú ábending, að ætlunin væri nota MgCl, magnesíumklóríð á götur í stað hefðbundins salts, og mun það 10 sinnum meira ætandi.

2. Nýta ætti aðrar hálkuvarnir en saltið og auðvitað væri það lausn að allir keyrðu á „almennilegum“ dekkjum. Auk þess þyrfti bærinn að eiga og nota fullkomin tæki til hreinsunar gatna.

3. Kornastærð skiptir miklu máli þegar hálkusandur er valinn. Í Svíþjóð mun t.d. ekki notaður minni en 5mm, en hér mun 2-2,5mm. Íslenskt berg og sandur lint, molnar auðveldlega og verður sallafínt. Sá sandur sem notaður er á Akureyri er unninn úr klöpp, nánar til tekið við Skúta. Þá virðist sem svo, að eitthvað af hálkusandi sé blandaður leir og mold, sem verður að drullu.

4. Þá má spyrja sig, hvort nauðsynlegt sé að hálkuverja jafn mikið og gert, þarf að dreifa svo miklum sandi. Eru allar götur jafn bráðhættulegar í hálku?

5. Jóhann Björgvinsson spurði um efnasamsetningu svifryks. Svar barst úr sal, að rykið væri m.a. 40% malbik, 30 % sót (diesel) en aðeins 4% salt skv. skýrslu frá Eflu.

6. Lækka mætti hámarkshraða heyrðist úr sal, líklega yrði það ekki vinsæl ákvörðun.

7. Ef þetta er ekki sandur eða aur á götunum hvað er þetta þá ?

8. Við útreikninga á magni svifryks þarf að taka tillit til margra þátta, t.d. umferðarþunga og tíma dags. Er það t.d. tilviljun að svifrykstoppar mælast milli 7 og 8 á virkum morgnum en mun minna kl. 11 sömu daga.

9. Það er ekkert að því að nota sand til hálkuvarna ef kornastærð er þokkaleg. Saltblandaður sandur getur gert illt verra. Stundum er sandað við aðstæður þar sem það gerir ekkert gagn, sandur verður bara drulla.

10. Salt í sandi mun hafa verið hugsað til þess að þægilegra væri að geyma sandinn en auk þess til þess að hann héldist niðri (dæmi um að flutningabílar hafi feykt sanddreifum af þjóðvegum). Af hverju er ekki notaður saltblandaður sandur á flugbrautum ? Af því það er bannað, er talið skemma flugvélar. Og það sem skemmir flugvélar skemmir væntanlega bíla líka.

11. Sjór á göturnar þykir fundargestum almennt afleit hugmynd. Leysir upp malbik og drullu af götum og eru menn á einu máli um, að aldrei hafa bílar verið jafn skítugir og nú. Vitað er til þess, að sjó sem dreift er á götur sé dælt upp við Krossanes þar sem skólpi bæjarins er dælt út!

12. Sjórinn bindur svifryk, viljum við sjó eða svifryk ? Enginn vill svifryk en þessi saltaustur er ekki forsvaranlegur. Einhvern tíma var mælst til þess, að fólk þvæði ekki bíla sína heima vegna efna sem bærust í fráveitukerfið. Þetta ástand ýtir undir frekari bílaþvott. Þessi drulla veðst um allt á bíla, undir skó og hundslappir og þannig um fyrirtæki, stofnanir og heimili.

13. Til máls tók Ólafur Kjartansson: Svifryk er ástæða sjávarausturs á göturnar. Ekki er búið að stoppa „uppsprettuna“ en búið að stífla lækinn- og við keyrum gegn um stífluna! Sjórinn er þannig „lausn“ á vandamáli sem heitir svifryk en umrædd lausn skapar annað vandamál. Lagt var í þessa vegferð vegna þess að bærinn var kominn með bakið upp við vegg vegna svifryksmengunar, var farið að bitna á kynningu bæjarins. Ólafur benti á, að algengustu svifrykstopparnir séu oftar en ekki þegar frost er og að nagladekk sem fræstu upp göturnar ættu kannski einhverja sök. Bent var á, að lausnin hlyti að felast í þrifum á götum en Ólafur svaraði því til, að erfitt væri að þrífa göturnar í frosti.

14. Elías Þorsteinsson benti á, að sjórinn skapaði líka svifryk en það mælist ekki af því það er rakt.

15. Áhrif nagladekkja eru líklega ofmetinn, tjöruaustur mun t.d. ekki endilega meiri ef þau eru notuð frekar en önnur.

16. Jóhann Björgvinsson nendi, að aðaláherslan varðandi svifrykið hlyti að vera að á þrif gatna fyrst og fresmt. Varast skal að fara í skotgrafir og ætla að skikka fólk til notkunar sérstakra dekkja frekara en annarra. Fólk vill, eðlilega, vera á öruggum dekkjum og þar velja margir nagladekk. Þá má skoða það í þessu samhengi, að stórir bílar á borð við flutningabíla slíta vegum u.þ.b. 20.000falt á við fólksbíla. Þá var nefnt, að í Moskvu séu götur þrifnar með háþrýstispratum og þar keyri enginn á nagladekkjum. Þannig að þar hljóti eitthvert að vera svifrykið, þó engin séu nagladekkin.

17. Úr sal barst sú ábending, að sumar götur væru mikilvægari en aðrar hvað varðar þrif. T.d. þungar umferðargötur. Þrif á götum mikilvæg, ljóst er að sót er í töluverðu magni í svifryki og sót út díselútblæstri getur verið krabbameinsvaldandi.

18. Setja má spurningarmerki við mælingar sem gerðar eru á svifryki. Eru mælar á góðum stöðum ? Þá þarf að taka fleiri breytur inn í mælingar, umferðarhraða, umferðarþunga, tíma dags. Er e.t.v. verið að mála skrattann á vegginn vegna stakra toppa sem skapast við sérstakar aðstæður á afmörkuðu tímabili á einum stað ? Samanburður á Akureyri og Reykjavík er ekki endilega marktækur þar „er alltaf rok og rigning“ en hér eru meiri staðviðri og stillur.

19. Menn hafa heyrt eftir fyrirspurnir til bæjarins að þar séu menn á báðum áttum og engan veginn sammála um þetta fyrirkomulag þ.e. sjóausturinn.

20. Spurt var um drullu í sandi. Er sá sandur sem borinn er á götur sá sami og garðeigendur notast við? Finnur Aðalbjörnsson svaraði því til að svo væri ekki. Benti einnig á að sýni sem hann sá hjá COLAS malbikun, samanburð á kjarnasýnum úr malbiki þar sem salti var dreift og ljóst að saltið eyðir upp efstu þunnu lögunum úr malbikinu. Þannig situr laust efni eftir, sem myndar svifryk. Salt slítur slitlagi langmest.

21. Jóhann Björgvinsson nefndi dæmi frá Noregi, þar sem hann hafa líkt og hér, lengi glímt við svifryk. Þar var farið í að skattleggja og stórlega dró úr notkun þeirra. Í ljós kom, að nánast enginn munur var á svifryki.

22. Finnur Aðalbjörnsson nefndi, að malbiksviðhald á ári næmi 100 tonnum. Þannig að 100 tonn af malbiki eyðast upp, og þau hverfa ekkert bara í holræsin eða slíkt, heldur sitja á götunum og þyrlast upp. Bærinn þarf einfaldlega að fjárfesta í almennilegum sóparatækjum og nota þau 10 mánuði á ári.

23. Hvað með umferðaröryggi var spurt. Hvernig samræmist það umferðaröryggi að gera bíla bæjarins bremsulausa, þar eð salt skemmir bremsubúnað. Að auki rýrir drullan, sem saltið skapar, útsýni ökumanna.

24. Hver stjórnar þessu ? Hver gefur skipanir um að þetta skuli gert ? var spurt úr sal. Ljóst er, að allir fundarmenn vilja ræða við bæjarfulltrúa og helst alla í einu. Fá þarf haldbær gögn (sbr. malbikssýni frá COLAS, skýrslu frá Eflu).

25. Þá kom fram ábending um það, að ekki hafi verið mokað í fyrsta snjó. Stór hluti þeirra óhreininda sem nú plaga bæjarbúa hefði líklega farið með snjómokstri; sbr. snjóruðninga að vori, sem oftast eru haugdrullugir.

26. Gott væri að mynda 3-5 manna hóp sem myndi vinna áfram með þessar hugmyndir, m.a. það sem fram hefur komið hér, auk þess að afla gagna og reyna að ná tali af kjörnum fulltrúum og embættismönnum Akureyrarbæjar. Markmiðið hlýtur að vera, að veita ráðgjöf og finna aðrar lausnir við svifryksvandamálinu en sjó og salt á götur. Því sú „lausn“ gerir illt verra.

Vinnuhópur skipaður:

Elías Þorsteinsson formaður
Jóhann Björgvinsson
Hrafn Stefánsson
Jón Heiðar Jónsson
Ritari Arnór Bliki Hallmundsson.

Fundi slitið kl. 16.

Akureyri, 23. nóvember 2019.
Arnór Bliki Hallmundsson fundarritari.
Samþykkur Elías Þorsteinsson

Má bjóða þér að deila þessari síðu?
 • 159
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
 •  
  159
  Shares